Íslenskir karlmenn á aldrinum 16-45 ára eru mun ólíklegri en aðrir hópar til að sækja endurhæfingu þegar þeir greinast með krabbamein. "Þetta er annað en þú heldur" er setning sem heyrist oft þegar ungir karlmenn sem sótt hafa endurhæfingu lýsa upplifun sinni á sjúkdómnum og hvernig sé best að vinna með afleiðingar meðferða og aðgerða.

Verkefni þessu er ætlað að vekja þennan hóp til umhugsunar um hvað endurhæfing inniheldur, hver ávinningurinn er og sýna fram á að endurhæfing er annað en þú heldur.

Hvað færðu út úr því að sækja endurhæfingu í Ljósið?

Aðstoð við að viðhalda orku, halda áfram að vinna eða snúa til baka til vinnu sem fyrst: Í því felst meðal annars að hitta sjúkraþjálfara og ræða hvernig viðhalda má orku og styrk samhliða og eftir krabbameinsmeðferð. Við vinnum ekki bara með vandamálin sem skapast í ferlinu heldur einnig tækifærin. Sumir horfa til dæmis á ný mið, eitthvað sem þá hefur alltaf langað til að gera, og við erum með fagfólk sem er snillingar í svona samtölum.

Fjárhagslega hagkvæmt: Við veitum margvíslega þjónustu eins og sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og næringarráðgjöf að kostnaðarlausu.

Ráðgjöf þegar þörf er á: Regluleg stöðutékk með tengilið, bæði varðandi virkni, líkamlegan sem og andlegan styrk.

Meiri skilningur: Við leggjum okkur fram um að stuðla að opnum samskiptum á jafnræðisgrundvelli millli ungra manna sem eru að eiga við það sama. Að hitta aðra í sömu stöðu, spegla, ræða og styðja hvern annan.  

Slakar á: Við bjóðum upp á heilsunudd og nálastungur sem henta mjög vel samhliða hinum ýmsu átökum í meðferðarferlinu

Hjálpar fjölskyldunni þinni að líða betur: Við veitum fjölskyldunni fræðslu og stuðning í gegnum námskeið og viðtöl.

Kúplar þig út úr hversdeginum: Við plönum allskonar hittinga og upplifanir úti í bæ eða í húsi. Það er gott að gleyma sér í skemmtilegum hittingum og hitta aðra í sömu stöðu.